Fræðsla

Spurt og svarað

  • Hægt er að vera með slæma geðheilsu án þess þó að fylla upp í skilmerki geðrænna raskana eða veikinda, rétt eins og við getum lifað við slæma líkamlega heilsu án þess þó að vera með einhvern sjúkdóm. Það þýðir ekki að við þurfum ekki að sækja okkur aðstoð við þeim vanda sem kann að koma upp hjá okkur. Því er mikilvægt að þekkja muninn á erfiðum tilfinningum sem líða hjá og þeim sem vara lengur eða koma upp oftar en æskilegt er. Þegar slæm geðheilsa er farin að hafa áhrif á daglegt líf er mikilvægt að leita sér aðstoðar, hvort sem það sé hjá fagaðila eða með því að tala við einhvern sem maður treystir. Þessi áhrif geta til dæmis komið fram í því að við sinnum ekki grunnþörfum okkar almennilega, eða þá að við drögum okkur ef til vill meira í hlé en áður, sleppum því að fara út úr húsi nema við nauðsynlega þurfum, fjarlægjumst vini og vandamenn og þar fram eftir götunum. Einnig er gott merki þegar þau sem standa okkur næst fara að taka eftir breytingum til hins verra í fari okkar. Fagaðilar geta svo skorið úr um það hvort um geðræn veikindi sé að ræða eða vægari geðrænan vanda svo hægt sé að hefjast handa við það að bæta líðan og auka velferð.

  • Gott ráð er að leita sér hjálpar þegar þú ert í vafa um hvort þú þurfir hjálp eða ekki. Ef þú upplifir þau skilmerki sem nefnd eru hér að ofan er líklegt að þú gætir hagnast af því að leita þér hjálpar. Sért þú enn í vafa er betra að leita sér hjálpar fyrr en síðar, áður en vandamálin ágerast. Sum upplifa ákveðna skömm þegar þau sækja sér aðstoð vegna geðheilsunnar. Þetta getur verið vegna innri fordóma, meðvitaðra eða ómeðvitaðra, eða vegna fordóma í nærumhverfi okkar. Það er mikilvægt að skilja að það er í raun enginn munur á því að leggjast inn á lyflækningadeild og geðdeild, bæði úrræði eru til þess að aðstoða okkur við að komast til heilsu. Sama gildir um heimsóknir til heimilislækna.

  • Tilfinningalegt jafnvægi snýst um að geta gengið í gegnum erfiðleika án þess að verða óvirkur í samfélaginu, þ.e. detta úr vinnu eða skóla, eða geta ekki sinnt öðrum skyldum. Verði uppákomur til þess að við upplifum langvarandi tilfinningalegar afleiðingar sem okkur tekst ekki að takast á við á heilbrigðan hátt er það merki um að við séum ekki í góðu andlegu jafnvægi. Tilfinningar eru nefnilega eins og veðrið, stundum er vont veður og stundum er heiðskírt og sól, en öll veður líða hjá að lokum. Sé vont veður í of langan tíma er kominn tími til að leita sér hjálpar.

    Góð andleg geðheilsa snýst ekki um að vera alltaf á bleiku skýi, að upplifa ekki erfiðar tilfinningar og að vera alltaf í góðu skapi. Allar tilfinningar eiga rétt á sér, þær segja okkur einfaldlega til um hvort verið sé að mæta þörfum okkar (jákvæðar tilfinningar) eða ekki (erfiðar tilfinningar). Hún snýst um það að vera í andlegu jafnvægi eins og áður var lýst.

Verkfæri

  • Mikilvægt er að hafa ákveðin bjargráð til þess að takast á við erfiðar tilfinningar. Bjargráð eru leiðir sem við notum til þess að spjara (e. cope) okkur í erfiðum aðstæðum og getur margt flokkast sem slík ráð. Margir gera þetta á vissan hátt ómeðvitað, til dæmis með því að hringja í vin þegar eitthvað bjátar á eða dreifa huganum, en stundum er gott að hafa fyrirfram ákveðnar leiðir. Gott er þó að hafa í huga að erfiðar tilfinningar eru eðlilegar og stundum er best að leyfa sér að upplifa tilfinninguna og láta hana líða hjá.

  • Í rauninni er hægt að flokka allt sem lætur manni líða vel og hefur raunveruleg góð áhrif á okkur sem bjargráð. Sem dæmi nýta margir sér það að stunda hreyfingu til þess að losa um spennu og draga úr streitu eða lesa bók, skrifa í dagbók, stunda áhugmál, hlusta á tónlist og svo framvegis.

    Eins og fram kemur að ofan eru bjargráð persónubundin enda gildir ekki eitt yfir alla í þessum efnum. Við þurfum bjargráð til þess að halda jafnvægi og eru þau sérstaklega mikilvæg fyrir þau sem upplifa mikið af erfiðum tilfinningum eða erfiðum aðstæðum, sem og þau sem glíma við andleg veikindi. Eins og áður hefur verið nefnt getur reynst vel að hafa fyrirfram ákveðin bjargráð og hafa þau á aðgengilegum stað. Að nota bjargráðin sín er ákveðin geðrækt, því rétt eins og við ræktum líkamann með hæfilegri hreyfingu, næringarríku mataræði og góðum svefni þurfum við að rækta geðið, meðal annars með því að nota bjargráðin okkar.

    Hér er dæmi um verkfærakistu sem hefur verið flokkuð og dæmi um bjargráð í hverjum flokki. Einnig er hægt að hlaða niður tómu skjali til þess að fylla út.

  • Skaðráð eru ráð sem við leitum í en geta haft skaðleg áhrif á okkur til lengri tíma litið. Undir þetta flokkast meðal annars neysla áfengis og annarra vímuefna, sjálfskaði, að eyða of miklum tíma í símanotkun eða sjónvarpsáhorf og ýmisleg áhættuhegðun sem getur haft slæmar afleiðingar. Þessar leiðir geta veitt okkur tafarlausa ánægju og vellíðan en um leið og áhrifin líða hjá, t.d. þegar við verðum edrú eða leggjum frá okkur símann, eru vandamálin enn til staðar og líðanin getur jafnvel orðið verri en áður.

Hugtök

  • Valdefling snýst um að öðlast vald til að geta haft áhrif á þá þjónustu sem við fáum og líka til að öðlast innra vald til að geta sagt og vitað hvað við viljum. Markmiðið er að læra hvernig maður getur tekið ákvarðanir um eigið líf. Hugtakið tengist lýðræði og valdi einstaklingsins yfir eigin lífi og umhverfi, og eru einstaklingar hvattir til að finna eigin kraft svo þeir geti unnið að velferð sinni og hámörkun lífsgæða.

    Valdefling snýst um að breyta sjálfsskilningi, eða sjálfsvitund þeirra sem þurfa á einhvers konar aðstoð að halda, að þeir sjái sig sem einstaklinga sem hafa rétt til að bregðast við þjónustuveitendum, skipulagi og stjórnun þjónustunnar, aðstoðinni sem þeir fá og því lífi sem þeir kjósa að lifa. Þetta hefur einnig áhrif á það að starf Grófarinnar fer fram á jafningjagrundvelli, við aðstoðum hvert annað við að finna okkur sjálf.

    Judi Chamberlin (f. 1944), upphafskona valdeflingar, var framsækinn frumkvöðull á sínu sviði og byggði hún hugmyndafræðina á eigin reynslu af geðheilbrigðiskerfinu, verandi notandi þess. Hún var þeirrar skoðunar að læknisfræðilega módelið, sem enn er ríkjandi nálgun að geðheilbrigði, passaði einfaldlega ekki við þarfir allra sem þurfa hjálp við að takast á við andlegar áskoranir. Hún lagði ríka áherslu á virðingu og að hafa vald yfir eigin lífi.

    Hér er hægt að lesa meira um valdeflingu og valdeflingarpunktana 15: grofinak.is/valdefling

  • Rétt eins og við stundum líkamsrækt til þess að rækta líkamann stundum við geðrækt til að rækta geðið. Margt getur falist í geðrækt, til dæmis það að njóta náttúrunnar, fara á sjálfsstyrkingarnámskeið, skrifa í dagbók og jafnvel stunda líkamsrækt. Geðrækt er lífslangt verkefni sem stuðlar að bættri geðheilsu og jafnvægi sem á móti eykur lífsgæði okkar. Eins og fram kemur að ofan er gott að eiga bjargráð til að aðstoða okkur í geðræktinni til að minnka líkur á bakslögum.

  • Bataferli er leiðin sem við förum í átt að bata. Þegar við byrjum að vinna í okkur með því markmiði að komast í bata er talað um að við séum að hefja bataferli okkar. Við vinnum í andlega batanum m.a. með því að notast við ýmis konar geðrækt, fara til sálfræðings eða á námskeið sem styrkja okkur.

    Mikilvægt er að hafa í huga að batferli okkar er ekki endilega línulegt, heldur getur það farið í allar áttir. Það er eðlilegt að lenda stundum í bakslögum eða að batinn hægi á sér um stund, en þá má ekki láta deigan síga heldur leita annarra leiða til að hjálpa okkur áfram í bataferlinu. Úrræðin í samfélaginu eru fjölmörg en hér er hægt að lesa um nokkur þeirra.