Rjúfum þögnina

Reynslusögur

„Grófin hefur átt stóran þátt í mínu bataferli þar sem ég hef fengið tækifæri til að rjúfa félagslega einangrun og auka álagsþolið mitt með því að taka að mér ýmis verkefni, bæði stór og smá. Ég er ótrúlega þakklát fyrir það sem Grófin hefur gefið mér en með því að stunda Grófina reglulega hef ég náð miklum framförum þegar kemur að minni heilsu. Hvort sem um er að ræða líkamlega, andlega eða félagslega heilsu.”

„Ég var virkur notandi í Grófinni um tíma árið 2014 – þegar Grófin geðrækt var enn á sínu fyrsta ári. Þó ég hafi verið mjög veikur á þeim tíma, þá gafst mér samt færi á að móta starfið. „Unghuga“-hópurinn sem ég stofnaði ásamt tveimur öðrum þáttakendum í Grófinni er enn á dagskrá í dag. Mér finnst það ágætis dæmi um hvernig Grófin gefur manni tækifæri til að valdeflast. Það er því miður ekki sjálfgefið í samfélaginu þegar maður hefur fengið stimpilinn „geðsjúklingur“.”

„Það er Grófinni að þakka að ég sé á lífi í dag. Ég var svo heppin að fá að kynnast Grófinni í gegnum sjálfboðaliðastarf fyrir um 10 árum síðan, en þá var ég mjög veik. Á öllum þessum árum hef ég lent í veikindafasa oftar en einu sinni og alltaf fengið þann stuðning sem ég þurfti á að halda.  Á þessum tíma hef ég fengið að taka þátt í ýmsum verkefnum tengdum Grófinni sem hafa hjálpað mér að fá að vaxa og þroskast og læra betur inn á sjálfa mig og geðheilbrigðismál almennt. Fólkið á staðnum hefur reynst mér ómetanlegur stuðningur og hef ég eignast hér marga vini og ferðafélaga í þessu bataferli sem við flest erum í.”

„Það sem Grófin hefur gefið mér er fyrst og fremst er að rjúfa félagslega einangrun því að þegar maður dettur út af vinnumarkaði þá er maður mikið einn á meðan allir hinir eru að vinna á daginn. Það er ómetanlegt að hafa griðarstað þar sem maður getur hitt fólk í svipaðri stöðu sama hvort það sé bara að spjalla yfir kaffibolla eða nýta sér hópastarfið til að byggja sig upp. Með því að nýta mér hópastarfið hef ég lært mikið um sjálfa mig og aðra og valdefla mig ótrúlega mikið. Það er líka rosalega gott að hafa val til um nýta mér hópastarfið, virknihornið eða bara fengið að púsla og kjafta. Einnig er það ómetanlegt  að geta komið sama hvernig mér líður, það er alltaf skilningur og tekið vel á móti manni, að eiga stað þar sem maður er gripinn. Ég hef eignast fullt af góðum vinum og prófað fullt af nýjum hlutum. Það er líka gefandi að geta verið til staðar fyrir aðra og að það sé engin pressa til þess. Með því að vera að stunda Grófina finnst mér ég hafa öðlast nýjan tilgang sem mér fannst ég missa við að detta út af vinnumarkaði.”