Tengsl og vinátta sem myndast er mörgum ómetanlegt öryggisnet
Pálína ræddi við Vikublaðið í afmæli Grófarinnar síðastliðinn 10. október. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan eða inni á vikubladid.is.
„Það er ljóst að mikil þörf er fyrir opinn, ókeypis stað í okkar samfélagi, líkt og Grófin er. Það má segja að Grófin sé orðin að öflugu stuðningssamfélagi fólks sem er til staðar fyrir hvert annað þegar á reynir og þau tengls og vinátta sem þar myndast er mörgum ómetanlegt öryggisnet,“ segir Pálína Sigrún Halldórsdóttir framkvæmdastjóri og iðjuþjálfi hjá Grófinni Geðrækt en mikið var um dýrðir í vikunni þegar haldið var upp á 9 ára afmæli Grófarinnar sem ber einnig upp á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn.
„Þetta var frábær dagur í alla staði. Við fengum marga góða gesti sem nutu hans með okkur og við áttum fjölmörg góð samtöl við okkar gesti sem fylltu okkur bjartsýni yfir því sem við getum gert sem samfélag ef við bara róum í sömu átt, styðjum við það sem við höfum og eflum það í takt við þarfir samfélagsins hverju sinni,“ segir Pálína.
Grófin er til húsa á fjórðu hæð við Hafnarstræti 95 á Akureyri. Grófin er opið og gjaldfrjálst úrræði þar sem fólk með reynslu af vanda af geðrænum toga, aðstandendur þeirra og fagfólk sem starfað hefur í geðheilbrigðisþjónustu á Akureyri vinnur saman að geðrækt. Staðurinn var stofnaður árið 2013 af hópi sem samanstendur af notendum, aðstandendum og fagfólki og er unnið út frá hugmyndafræði valdeflingarbata og jafningjanálgunar.
Lýðræðislegt samfélag jafningja
„Grófin er lýðræðislegt samfélag jafningja þar sem hver og einn er á sinni vegferð í að rækta sína geðheilsu. Það er misjafnt milli fólks hvernig það nýtir Grófina. Sumir nýta hana til að halda sér í bata á meðan aðrir taka þar sín fyrstu skref í bataferlinu og enn aðrir starfa hér alla daga,“ segir Pálína en Grófarfélagar ákveða dagskrána sem í boði er á starfsdögum en einnig eru vikulegir kjarnafundir þar sem öllum félögum er heimilt að setja mál á dagskrá og taka afstöðu til þess sem um er fjallað. „Þannig höldum við lýðræði í starfseminni og tryggjum að allir fái tækfæri til að hafa eitthvað um það að segja hvað gert er í Grófinni, hver stefnan í starfseminni eigi að vera.“
Ákveðið var á kjarnafundi á dögunum að efna til opins húss á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum, 10. október og nýta daginn ekki einungs í að bjóða upp á veislukaffi heldur bjóða einnig sérstaklega upp á samráðsvettvang fyrir samstarfsfólk sem vinnur að geðheilbrigðismálum dagsdaglega sem og þeim sem taka afstöðu til mikilvægra mála og móta stefnuna bæjarfélaginu og ákveða í hvað okkar sameiginlegu fjármunum skuli eytt. „ Að þekkja úrræðin í samfélaginu er grundvöllur þess að taka upplýstar ákvarðanir,“ segir Pálína „Eitt af markmiðum Grófarinnar er að efla samstarf á milli þeirra úrræða sem við höfum í samfélaginu og hafa geðheilsueflingu að leiðarljósi. Við viljum efla tengslin og byggja brýr á milli úrræða þannig að við getum sem best stutt við það fólk sem ekki býr við góða geðheilsu,“ segir Pálína.
Fordómar og stimplun koma í veg fyrir að fólk gefi sér möguleika
Hún nefnir að ljóst sé að styðja þurfi vel við unga fólkið og við sem samfélag þurfum að vera samstíga í þeim efnum. „Það er líka nauðsynlegt að vinna áfram gegn fordómum en þeir finnast því miður víða þegar kemur að geðvanda, við verðum að halda áfram á þeirri leið okkar að koma í veg fyrir stimplun. Það eru fordómar og stimplun sem einna helst koma í veg fyrir að fólk gefi sjálfu sér möguleika á að prófa þau úrræði sem í boði eru, sama hvert nafn þeirra er og fordómarnir búa innra með okkur en þar væru þeir ekki nema vegna þess sem við heyrum og sjáum í kringum okkur í uppvexti. Því er mikilvægt að tala opinskátt og uppbyggilega um þessi mál. Það er okkar von að við sem störfum á sviði geðheilbrigðis getum unnið saman að því að draga úr fordómum með góðum viðburði á alþjóðlega heilbrigðisdeginum 10. október á næsta ári.
Pálína segir að starfsemi Grófarinnar hafi þróast og breyst frá því félagssamtökin voru stofnuð fyrir 9 árum og þá í takt við það sem Grófarfélagar hafi komið með að borðinu hverju sinni. Aðsókn að Grófinni hefur verið nokkuð jöfn og stöðug. Að meðaltali hafi 17 til 18 manns mætt daglega, en kórónuveirufaraldurinn setti strik sitt í reikninginn eins og við var að búast. Aðeins dró úr mætingum en þær tóku kipp á liðnu ári, voru í allt 4621 yfir árið, þannig að meðaltalið var um 20 manns á dag. Enn heldur aðsókn áfram að aukast og er meðaltalið komið upp í 23 á degi hverjum þannig að ef fram heldur sem horfir stefnir í að komur verði um 5.500 á þessu ári.
Góður liðsauki
„Við nýttum Kóvidtímabilið vel til að fara yfir starfsemina, fjölga dagskrárliðum og gera þá fjölbreyttari en áður var. Við settum m.a. inn fleiri virknihópa, ungliðastarf fór af stað að nýju, við efldum kynningarstarfið í gengum netmiðla svo um munar til að ná til unga fólksins og það virkað sérstaklega instragrammið,“ segir Pálína og bætir við að einnig hafi verið myndaðar góðar samstarfstengingar við göngudeild Sjúkrahússins á Akureyri og geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands eystra í gegnum dagskrárliði eins og fjölbreyttari hreyfingu, virknihornið og konuhópinn sem við köllum Gyðjurnar- sjálfsrækt kvenna. Dagskráin samanstendur einnig af fjölbreyttri hreyfingu, geðræktarhópum, umhyggjuhóp, karlahóp, unghugahóp og viðburðum, sönghóp ásamt spila og spjallhóp fyrir enskumælandi fólk.
Í fyrstu var 1,3 stöðugildi tveggja starfsmanna í Grófinni. Á síðasta ári fóru stöðugildi upp í 2,16 en með auknum fjölda fólks sem sækir staðinn og verkefnum þurfi þau að vera fleiri segir Pálína. Liðsauki barst í starfshópinn fyrir um tveimur árum, en þá kom til starfa fólk með dýrmæta reynslu og kunnáttu sem nýttist Grófinni vel, flestir á vinnusamningum gegnum Vinnumálastofnun og segir hún það frábært úrræði fyrir fólk sem ekki hafi fulla starfsgetu eða sé á örorku- eða endurhæfingarlífeyri. Einnig hafi Grófin notið liðsinnis nema frá Háskólanum á Akureyri.
Um 80% nýta sér hópastarfið
„Við byrjuðum á því á kóvidárinu 2020 að skrá þátttöku í öllu hópastarfi og það gerði okkur kleift að fylgjast vel með. Það kom í ljós að um 74% þeirra sem sóttu Grófinu á síðastliðnu ári tóku þátt í skipulögðu hópastarfi. Þegar við skoðum tölur það sem af er þessu ári sjáum við að talan hefur hækkað og er um 80% þannig að bróðurpartur þeirra sem til okkar koma nýtir sér skipulagt starf af einhverju tagi. Þau 20% sem gera það ekki er fólk sem kemur í heimsókn, fær sér kaffibolla og tekur spjall í setustofunni. Við erum afskaplega ánægð með þessa þróun, það má segja að við höfum svo sannarlega náð okkar markmiðum, því það er enginn skikkaður í hópastarf, fólk fer í það af fúsum og frjálsum vilja af því að eflir það,“ segir Pálína.